Maja Kocijanic, talsmaður stækkunarstjóra Evrópusambandsins, sagði á daglegum blaðamannafundi framkvæmdarstjórnar ESB í hádeginu, að sambandið hafi tekið bréf ríkisstjórnar Íslands til greina. Íslands sé ekki lengur í hópi umsóknarríkja. Í lok fundarins sagði hún síðan að ríkisstjórn Íslands hefði ekki formlega dregið umsóknina til baka heldur hefði viðræðum verið frestað í tvö ár.

Í samtali við mbl.is segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra alveg greinilegt að talsmaðurinn hafi engan veginn verið með á hreinu hvað í bréfinu stóð. Hvergi í því sé minnst á tveggja ára frest. Hann segir að þegar hafi verið haft samband við Kocijanic og henni bent á að hún hafi ekki farið með rétt mál á fundinum.