Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur sett RÚV skilyrði fyrir fréttaviðtölum sem við hann eru tekin. Óðinn Jónsson, fréttastjóri RÚV, vekur athygli á þessu fésbókarsíðu sinni.

„Utanríkisráðherra synjar Ríkisútvarpinu um viðtal nema að hann fái eintak af því í heild, óklippt, eða viðtalið verði sent út beint. Óskað var eftir viðtali um ástandið í Úkraínu,“ segir Óðinn á fésbókinni.

Ekki hefur verið útskýrt hvers vegna ráðherrann setur RÚV þessar skorður. Sem kunnugt er liggur þingsályktunartillaga utanríkisráðherra um að afturkalla aðildarumsókn að Evrópusambandinu fyrir þinginu. Margir stuðningsmenn tillögunnar hafa gagnrýnt RÚV fyrir fréttaflutning af málinu.

Á vef RÚV kemur fram að Gunnar Bragi hafi veitt fréttamanni Stöðvar 2 viðtal vegna sama máls.