„Mín skylda er sú að vinna með heilbrigðiskerfið á þann veg að lækna sjúka og lina þjáningar og það er meginskylda heilbrigðiskerfisins," sagði Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, í kvöldfréttum Stöðvar 2. Hann útilokar ekki að kannabis verði leyft ef sérfræðingar telji að það geti gagnast sjúklingum.

Benti ráðherrann sérstaklega á ummæli Kristínar Ingólfsdóttur, rektors HÍ, um að hún teldi að taka ætti alvarlega til skoðunar að leyfa efnið í læknisfræðilegum tilgangi. Kristín er lyfjafræðingur að mennt. „Ég tek í því efni fullkomlega undir með rektori HÍ, lyfjafræðiprófessornum," sagði Kristján Þór.

Hann segist aðspurður ekki vita hvort lagabreytinga sé þörf eða hvort það sé á valdi hans sem ráðherra að ákveða breytinguna. Nefnd á vegum heilbrigðisráðuneytis sem hefur það hlutverk að draga úr skaðlegum áhrifum fíkniefnaneyslu mun skila tillögum sínum í lok þessa árs eða byrjun þess næsta.