Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vill að farið verði að tillögum starfshóps um styrkingu geitfjárstofnsins. „Vilji ráðherra stendur til þess að gera geitfjárbætur jafnsetta sauðfjárbændum hvað varðar styrkjafyrirkomulag," segir Benedikt Sigurðsson, aðstoðarmaður sjávarútvegs- og landbúnaðarráherra.

„Það eru útgjöld ríkissjóðs sem að koma þarna inn í og það þarf að fá heimildir fyrir því," bætir Benedikt við. Starfshópur um styrkingu geitfjárstofnsins skilaði af sér tillögum í gær, þar sem lagt var til aukna aðkomu ríkisins að styrkingu stofnsins. Verði vilji ráðherrans að veruleika má því telja líklegt að geitfjárrækt verði færð inn í búvörusamninga, með svipuðum hætti og gildir um sauðfjárrækt.