Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra vissi ekki af því að Ríkisendurskoðun væri að vinna að skýrslu um kaup ríkisins á tölvukerfi frá Skýrr, innleiðingu þess og mikinn kostnað í tíð hans sem fjármálaráðherra á árunum 2009 til 2011. Hann sagðist fyrst hafa fengið vitneskju um tölvukerfið við fjárlagagerð fyrir árið 2011 þegar fram kom að gert væri fyrir ákveðnum kostnaði við uppfærslu á kerfinu.

„Ekki fylgdu því aðrar skýringar,“ sagði Steingrímur og benti á að um hefðbundnar uppfærslur væri að ræða. Hann bætti hins vegar við að sér þætti það afar dapurlegt hvernig málið hafi þróast hjá Ríkisendurskoðun.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Steingrím að því í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi, hvort hann hefði vitað af vandamáli við innleiðinu kerfisins í ráðherratíð sinni og hvort hann hafi gripið til ráðstafana. Hann rifjaði upp að málið hafi ratað inn í þingskjöl og nefndir árið 2009 þegar Sjálfstæðismenn hafi vakið athygli á málinu.

Steingrímur gagnrýndi hins vegar Ríkisendurskoðun og sagði nefndarmenn eiga að sinna eftirlitsskyldu. Til þess þurfi þeir gögn frá Ríkisendurskoðun sem mati þá á upplýsingum.

„Það er brotalömin að mál af þessu tagi skuli dangla svo lengi í kerfinu,“ sagði Steingrímur.