Ríkiskaup hafa birt á vefsíðu sinni hæstu tilboð í ráðherrabílana sem stofnunin auglýsti til sölu í síðustu viku.

Þar má sjá að hæsta boð í fjórhjóladrifinn BMW 5, sem var í eigu fjármála- og efnahagsráðuneytisins og þjónað hefur sem ráðherrabíll undanfarin ár, nam 2.517.999 kr. Bílinn er töluvert ekinn, eða 241 þúsund kílómetra, en Viðskiptablaðið taldi líklegt verð fyrir bifreiðina vera á bilinu 3 til 3,5 milljóna króna í umfjöllun um málið í síðustu viku.

Þá voru einnig auglýstir til sölu Volkswagen Passat, sem var ráðherrabíll Árna Páls Árnasonar þegar hann var félagsmálaráðherra, og Volvo XC90, ráðherrabíll Gunnars Braga Sveinssonar núverandi utanríkisráðherra og Ögmundar Jónassonar fyrrum innanríkisráðherra.

Hæsta boð í Passat Árna Páls nam 1.917.989 kr. en hann er svartur á lit og hefur verið ekinn 76 þúsund kílómetra. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins eru slíkir bílar metnir á 1,5 til 1,9 milljónir króna.

Öllu hærri fjárhæð var hins vegar boðin í Volvo Gunnars Braga og Ögmundar eða 3.917.999 kr. Sá hafði verið ekinn 207 þúsund kílómetra og taldi Viðskiptablað verðmat hans standa á milli 3 til 3,5 milljóna króna.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í nóvember síðastliðnum var gengið frá kaupum á nýjum bílum fyrir utanríkisráðherra og fjármálaráðherra. Fékk Gunnar Bragi þá afhentan nýja Land Rover Discovery jeppa, sem kostar frá 13 milljónum króna, og Bjarni Benediktsson Mercedes-Benz E-Class, sem kostar frá um 10 milljónum samkvæmt verðlista Bílaumboðsins Öskju.

Leiðrétting 11. febrúar kl. 15:00:

Upphaflega stóð í fréttinni að bílarnir væru seldir. Það er ekki rétt, og eiga hlutaðeigandi ráðuneyti eftir að taka afstöðu til þeirra tilboða sem bárust í bifreiðarnar. Fréttinni hefur nú verið breytt í samræmi við það.

Ráðherrabílarnir gömlu:

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

passat
passat