Frá því í sumar hefur Fjármála- og efnahagsráðuneytið haft til umráða bílaleigubíl eftir að eldri bifreið ráðuneytisins bilaði. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Viðskiptablaðsins um bifreiðina en sést hefur til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, á bílaleigubíl í stað ráðherrabifreiðarinnar.

Ráðherrabifreiðin, sem er 2004 árgerð af BMW 5, var í sumar tekin úr notkun að ráði umboðsins vegna þess að ekki var lengur hægt að tryggja rekstraröryggi hennar. Í framhaldinu fór fram örútboð vegna kaupa á nýrri bifreið í samstarfi við Ríkiskaup. Þá er ferill málsins í samræmi við lög um opinber innkaup og rammasamning frá árinu 2011 um kaup á ráðherrabifreiðum.