Theresa May, forsætisráðherra Breta, hyggst á næstunni skipta út nokkrum ráðherrum í ríkisstjórn sinni að því er kemur fram á vef Bloomberg. Undir lok síðasta árs lét hún Damian Green, aðstoðarforsætisráðherra, fara eftir að hann varð uppvís að því að ljúga um tilvist klámmynda á vinnutölvunni sinni.

Í fyrsta viðtali sínu á árinu sagði hún að eftir brotthvarf Green þyrfti að ráðast í breytingar og það myndi hún gera. Miðað við það sem fram kemur í bresku pressunni er þó ólíklegt að hún hreyfi við Boris Johnson sem hefur þótt vera mesti uppreisnarseggur ríkisstjórnarinnar.

Samkvæmt Sunday Times gætu heilbrigðisráðherrann, Jeremy Hunt eða samgönguráðherrann Chris Grayling fyllt skarð Green en einnig er telur blaðið líkur á að menntamálaráðherrann, Justine Greening og viðskiptaráðherrann, Greg Clark verði látin taka pokann sinn.