Sem kunnugt er voru gerðar breytingar á ríkisstjórninni nú um áramótin. Þeim Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Árna Páli Árnasyni, efnahags- og viðskiptaráðherra, var báðum vikið úr ríkisstjórn. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna (VG) og fjármálaráðherra, tók yfir bæði ráðuneytin en í stað hans settist Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, í stól fjármálaráðherra. Fjármálaráðuneytið færist þannig yfir til Samfylkingarinnar á meðan efnahags- og viðskiptaráðuneytið færist til VG.

Allt hefur þetta átt sér nokkurn aðdraganda. Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um snemma á aðventunni lá fyrir að mikill og flókinn ráðherrakapall væri framundan. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að nær öll aðventan hafi farið í það að leggja kapalinn fram með þeim hætti að þungavigtarmenn og -konur í báðum flokkum gætu sætt sig við hann.

Óljós tilgangur

Fáir virðast þó átta sig á tilgangi þess að skipta út ráðherrum eins og sakir standa. Óvild forystu Samfylkingarinnar í garð Jóns Bjarnasonar er þó öllum kunn. Minna hefur þó opinberlega farið fyrir persónulegri óvild Steingríms í garð Árna Páls, en Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um átökin á milli þeirra tveggja í fréttaskýringu þann 8. des. sl. Þá liggur nokkuð ljóst fyrir að Oddný Harðardóttir mun einungis sitja sem fjármálaráðherra til skamms tíma.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum tölublöð hér að ofan.