Fjármálaráðherrar evruríkjanna setjast enn á ný við fundarborðið í Brussel í dag til að ræða skuldavandann á evrusvæðinu. Breska ríkisútvarpið, BBC, segir ráðherrana líklega ræða m.a. um hugsanlegar lánveitingar úr björgunarsjóðum til handa Kýpverjum og Spánverjum auk þess sem búast megi við að Grikkir óski eftir því að dregið verði úr kröfum um frekari niðurskurð á ríkisútgjöldum.

Spánverjar óskuðu á dögunum eftir láni úr björgunarsjóðum myntbandalagsins til að bæta eiginfjárstöðu spænskra banka í skugga mikilla afskrifta eftir að bankabólan sprakk. Ríkið hefur verið að fjármagna sig upp á síðkastið á alþjóðlegum skuldabréfamörkuðum. Fjárfestar hafa hins vegar haft varann á sér og þurftu Spánverjar að greiða í byrjun vikunnar 7% álag á nýjar lántökur. Lántökukostnaðurinn hefur lækkað síðan þá en stendur eftir sem áður í rúmum 6,5% á ríkisskuldabréfum til tíu ára.

Til tals hefur komið að björgunarsjóðir evruríkjanna verði nýttir til að lækka lántökukostnað evruríkja sem glíma við skuldavanda, s.s. með beinum kaupum á ríkisskuldabréfum svo ríkin þurfi ekki að leita fyrir sér á alþjóðlegum mörkuðum.

Á vef BBC má skoða með myndrænum hætti ýmsar tölulegar upplýsingar um stöðu evruríkjanna. Þar á meðal eru skuldir þeirra sem hlutfall af landsframleiðslu. Þá er eins hægt að skoða hvort og þá hversu mikið skuldirnar eru yfir leyfilegu hámarki sem kveðið er á um í Maastricht-sáttmálanum um skuldastöðu hins opinbera.