Utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinson hefur fengið afhentan nýjan Land Rover Discovery jeppa sem ráðherrabíl. Jeppinn er af gerðinni Discovery SE sem kostar frá 13 milljónum króna samkvæmt verðlista BL, sem er umboðsaðili Land Rover.

Mercedes-Benz E-Class E 250 4MATIC
Mercedes-Benz E-Class E 250 4MATIC

Þá hefur fjármálaráðuneytið pantað Mercedes-Benz E-Class sem ráðherrabíl fyrir Bjarna Benediktsson efnahags- og fjármálaráðherra. Mercedes-Benz bíllinn er af gerðinni E 250 4MATIC, sem þýðir að hann er með drifi á öllum hjólum. Mercedes-Benz E-Class kostar frá um 10 milljónum samkvæmt verðlista Bílaumboðsins Öskju.

Bjarni hefur verið á bílaleigubílum að undanförnu þar sem ráðherrabíllinn, BMW 5 línan, hefur verið á verkstæði að undanförnu. Bjarni fær þó ekki Mercedes-Benz bifreiðina afhenta fyrr en um áramótin samkævmt upplýsingum Viðskiptablaðsins og verður því væntanlega áfram á bílaleigubíl næstu vikurnar.

Forsætisráðuneytið hefur augastað á tveimur bílum sem ráðherrabíl fyrir Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. Valið stendur á milli BMW 7-línunnar og Mercedes-Benz S-Class en þessir lúxusbílar kosta um 20 milljónir hvor samkvæmt verðlistum. Búast má við að forsætisráðuneytið taki ákvörðun á næstunni hvor bíllinn verður fyrir valinu.

Útboð hafa staðið yfir á kaupum ráðuneytana þriggja á umræddum bílum í samstarfi við Ríkiskaup. Gera má ráð fyrir að ráðuneytin fái einhvern afslátt af kaupunum á ráðherrabílunum.