Fjármálaráðherra G20-ríkjanna, tuttugu umsvifamestu iðnríkja heims, ræða á fundi sínum í París í dag tillögu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um skatt á ýmsa fjármálagerninga, svo sem viðskipti með hlutabréf og skuldabréf.

Aukaálögurnar gætu mest numið 0,1 prósenti en skilað 57 milljörðum evra á ári. Forsvarsmenn banka og fjármálafyrirtækja vísa hugmyndum í þessa átt út af borðinu.

Fréttastofa Reuters segir mestu andstöðuna gegn hugmyndinni röðum fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Kína, Bretlands, Ástralíu og Kanada. Iðnríkin hafa áður reynt að leggja á skatt á fjármagnsflutninga. Það skilaði engu þar sem ráðherrar ríkjanna töldu líklegt að bankar og fjármálafyrirtæki fyndu leiðir til að koma sér hjá greiðslunni.

Það var bandaríski prófessorinn James Tobin sem setti fram hugmyndir um skatt í fjármálagerninga þessum anda árið 1972 og hefur hún síðan þá verið nefnd eftir honum. Þegar Tobin varpaði hugmyndinni fram var markmiðið að nýta afraksturinn til að hjálpa þróunarríkjunum. Hann hlaut Nóbelsverðlaun í hagfræði árið 1981.

Síðustu ár hefur verið rætt um að nýta skattféð af fjármálagerningum til að blása glæðum í efnahagslíf vestrænna ríkja í vanda.

Reuters-fréttastofan segir að styðji Bretar ekki skattahugmyndina sé ekki útilokað að hann verði lagður á í evruríkjunum enda hafi José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, talað fyrir innleiðingu skattsins.