*

föstudagur, 19. júlí 2019
Innlent 6. nóvember 2017 11:38

Ráðherrar Pírata kosta 50 milljónir

Kalla þarf til varaþingmann fyrir hvern ráðherra Pírata, sem myndi auka hlutfall stjórnarliða á þingi og kosta milljónir.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Heildarlaunakostnaður vegna viðbótarþingmanna sem kalla þyrfti til vegna stefnu Pírata um að þingmenn sitji ekki sem ráðherrar nemur um 50 milljónum króna á kjörtímabilinu fyrir hvern þeirra. Þingfararkaup eins þingmanns nemur nú 1.101.194 krónum á mánuði, en yfir 50 milljónir á fjórum árum auk þriggja mánaða biðlauna að því er Morgunblaðið greinir frá.

Þess utan bætist við auknar lífeyrisskuldbindingar vegna nýrra þingmanna auk annars tilfallandi kostnaðar, en Smári McCarthy þingmaður Pírata segir hægt að réttlæta kostnaðinn með skilvirkara og sjálfstæðara þingi. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í morgun standa enn yfir stjórnarmyndunarviðræður flokksins við Vinstri græna, Samfylkingu og Framsóknarflokkinn.

Stjórnarliðum á þingi myndi fjölga á kostnað stjórnarandstöðunnar

„Við teljum að með þessum breytingum myndum við gera ráðherra óháðari og um leið auka getu þingsins til að starfa sjálfstætt,“ segir Smári, en með hverjum þingmanni Pírata sem tæki ráðherrastöðu kæmi þá viðbótarrödd stjórnarliða inn á þingið sem gæti tekið þátt í umræðum.

„Í síðustu ríkisstjórn voru menn í miklu basli með að manna nefndir sem kom mikið niður á afkastagetu nefnda. Þingmenn höfðu ekki tíma til að vinna sitt nefndarstarf vel, þannig að réttlætingin er mjög mikil.“

Smári segir að flokkurinn muni ekki gera þá kröfu að aðrir flokkar fylgi þeirra fordæmi, en hann vill skoða lagabreytingu sem gerði það að verkum að ráðherrar þyrftu ekki að segja af sér þingmennsku til að taka að sér ráðherrastól, en samt yrði varaþingmaður kallaður inn.