Carsten Hansen, ráðherra húsnæðis-, bæja- og byggðamála í Danmörku og Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, áttu fund saman í Reykjavík í dag. Á fundinum voru húsnæðismál landanna beggja til umræðu. Ráðherrarnir sammæltust um að skiptast á upplýsingum um húsnæðismál á komandi misserum.

Í maí síðastliðnum voru kynntar tillögur nefndar sem starfaði á vegum félags- og húsnæðismálaráðherra um breytta skipan húsnæðismála hér á landi: „Áform um breytingar á íslenska húsnæðiskerfinu fela í sér ákveðna þætti sem eiga sitthvað sameiginlegt með danska kerfinu og því er mjög gagnlegt að fá tækifæri til að ræða hvernig mál hafa þróast í Danmörku,“ segir Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra.

Ráðherrarnir ræddu meðal annars um fjármögnun húsnæðislána, uppbyggingu félagslegs húsnæðis og húsnæðisstuðing, mismunandi áhrif byggðaþróunar á húsnæðismarkaðinn og ýmsar lausnir sem ræddar hafa verið varðandi þessi mál.