Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, sakar ráðherra í ríkisstjórninni um sýndarleik vegna viðbragða við stefnum sjö útgerðafyrirtækja vegna úthlutunar makrílkvóta í vikunni. Meirihluti stefnanna bárust stjórnvöldum síðasta sumar.

Fyrst var greint frá stefnufjárhæðinni opinberlega um páskahelgina í svari Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar á Alþingi sem lögð var fram í lok janúar . Samtals var krafist 10,2 milljarða króna auk vaxta.

Á þriðjudaginn fóru Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fóru hörðum orðum um útgerðirnar í ræðustól á Alþingi. Bjarni sagði að ef ríkið myndi tapa málunum myndi sá reikningur lenda á útgerðunum sjálfum. „Reikningur vegna makrílmálanna verður ekki sendur á skattgreiðendur. Reikningurinn kemur frá greininni,“ sagði Bjarni.

Hanna Katrín bendir á að Morgunblaðið hafi eftir Guðbjörgu Matthíasdóttur, aðaleiganda Ísfélags Vestmannaeyja, að hún hafi ákveðið að falla frá ákærunni nokkru áður. Það hafi verið samþykkt af stjórn Ísfélagsins á þriðjudaginn og ráðherra í ríkisstjórninni hafi verið tilkynnt um það. Hanna Katrín spyr hvort ekki megi gera ráð fyrir að sá ráðherra sem fékk upplýsingarnar hafi látið aðra ráðherra vita af málinu.

Ekki viljað afhenda stefnurnar

Fimm af sjö útgerðafélögum tilkynntu á miðvikudagskvöldið að þau hyggðust falla frá stefnunum.

Viðskiptablaðið óskaði á síðasta ári eftir afriti af stefnum í málinu en því var neitað af ríkislögmanni. Úrskurðarnefndar um upplýsingamál snéri þeirri ákvörðun í byrjun apríl . Stefnurnar hafa enn ekki borist blaðinu.