Ríkisendurskoðun telur að taka verði á vanda þeirra 19 ríkisstofnana sem sitja uppi með verulegan uppsafnaðan rekstrarhalla frá fyrri árum um síðustu áramót og mælir til þess að fjárlaganefnd kalli ráðherra fyrir vegna málsins. Hvatt er til þess að fjárlaganefnd kalli Katrínu Jakobsdóttur menntamálaráðherra, Ögmund Jónasson innanríkisráðherra, Guðbjart Hannesson velferðarráðherra og Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra á sinn fund og krefji þá svara um hvernig tekið verði á rekstrarvanda stofnana með verulegan uppsafnaðan halla.

Ríkisstjórnarfundur
Ríkisstjórnarfundur
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Ríkisendurskoðun bendir á að samkvæmt gildandi reglum skulu rekstraráætlanir stofnana rúmast innan fjárheimilda þeirra. Þetta þýðir að ráðuneyti mega ekki samþykkja rekstraráætlanir nema að þar sé gert ráð fyrir að halli frá fyrri árum, sé um hann að ræða, verði að fullu greiddur á viðkomandi ári. Dæmi eru um að ráðuneytin hafi samþykkt áætlanir þar sem ekki var gert ráð fyrir slíkri uppgreiðslu.

Fram kemur í ábendingu Ríkisendurskoðunar að afkoma ríkissjóðs á fyrsta ársfjórðungi hafi verið nokkuð betri en áætlað hafi verið. Tekjuhallinn nam fjórum milljörðum króna en búist var við að hann yrði þrefalt meiri.  Þá bendir Ríkisendurskoðun á að gjöld allra ráðuneyta annarra en fjármálaráðuneytisins hafi verið innan áætlunar þótt rekstur þess hafi verið svo gott sem á áætlun.

Hins vegar er bent á að gjöld æðstu stjórnar ríkisins, þ.e. Alþingis og undirstofnana þess, ríkisstjórnar, forsetaembættisins og Hæstaréttar, voru 13% yfir áætlunum. Skýringin sé að hluta til sú að stofnanir gangi nú á ónýttar fjárheimildir sínar frá fyrri árum.

Ríkisendurskoðun gagnrýnir stöðuna og segir það þjóna engum tilgangi að láta slíkan halla hvíla á stofnunum ef ekki er talið raunhæft að ætla að þær muni geta greitt hann upp.

Sveinn Arason - Ríkisendurskoðandi
Sveinn Arason - Ríkisendurskoðandi
© BIG (VB MYND/BIG)
Sveinn Arason ríkisendurskoðandi vill að ráðherrar svari fyrir um ástæðu uppsafnaðs hallareksturs ríkisstofnana.