*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Innlent 28. nóvember 2021 12:48

Ráðherraskipan liggur fyrir

Formenn ríkisstjórnarflokkanna halda sínum ráðuneytum en annars á sér stað nokkur uppstokkun.

Ritstjórn
Formenn ríkisstjórnarflokkanna.
Eyþór Árnason

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, mun áfram gegna stöðu fjármálaráðherra í nýrri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og Vinstri Grænna. Að öðru leyti er búið að hrista vel upp í ráðherraskipan flokksins, að því er kemur fram á Vísi.

Jón Gunnarsson mun verða dómsmálaráðherra, en að hámarki átján mánuðum liðnum mun Guðrún Hafsteinsdóttir taka við af honum. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir verður utanríkisráðherra en Guðlaugur Þór Þórðarson, sem áður gegndi embættinu verður umhverfis- og loftslagsmálaráðherra. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir verður nýsköpunar-, iðnaðar- og háskólaráðherra.

Ráðherralistar Framsóknar og Vinstri Grænna hafa einnig verið kynntir til leiks á Vísi. Willum Þór Þórsson verður heilbrigðisráðherra, Ásmundur Einar Daðason verður ráðherra skólamála og barna, Lilja Dögg Alfreðsdóttir verður ráðherra viðskipta- og menningarmála og formaðurinn Sigurður Ingi Jóhannsson verður áfram samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sem verður að sögn hans eins konar innviðaráðuneyti.

Hjá Vinstri Grænum verður formaðurinn Katrín Jakobsdóttir áfram forsætisráðherra, Svandís Svavarsdóttir verður matvæla, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og loks mun Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála og vinnumarkaðsráðherra.       

Nú kl. 13 hefst fréttafundur á Kjarvalsstöðum þar sem stjórnarsáttmálinn verður kynntur.