Breytingar hafa verið gerðar á markaðs- og sölusviði Póstsins og fela þær í sér fjórar nýjar stöður.

Telma Eir Aðalsteinsdóttir og Vésteinn Viðarsson hafa verið ráðin sem vörustjórar og er þeim ætlað að tryggja árangursríka markaðssetningu á vörum Póstsins ásamt því að bæta afkomu og aðlaga vöruframboð að breyttu rekstrarumhverfi.

Óttarr Guðlaugsson og Viðar Blöndal hafa verið ráðnir viðskiptastjórar. Hlutverk viðskiptastjóra er að efla viðskiptatengsl við núverandi og nýja viðskiptavini ásamt því að greina þarfir viðskiptavina, bjóða upp á faglega ráðgjöf og sölu.

Telma Eir Aðalsteinsdóttir hefur reynslu af markaðsmálum, vöru- og verkefnastjórnun. Hún starfaði áður sem verkefnastjóri hjá Já. hf og þar á undan sem verkefnastjóri og í stofnstýringu hjá Verði tryggingum hf.

Vésteinn Viðarsson hefur reynslu úr flutningastarfsemi Póstsins. Hann starfaði áður sem viðskiptastjóri ásamt verkefnastjórn við stefnumótun hjá Póstinum.

Óttarr Guðlaugsson hefur mikla reynslu af sölu- og markaðsmálum og hefur sinnt ráðgjafastörfum á fjarskiptamarkaði. Hann starfaði síðast sem sölu- og viðskiptastjóri hjá Símanum.

Viðar Blöndal hefur langa reynslu af sölumálum. Um árabil starfaði hann hjá Toyota, fyrst sem sölumaður og seinna sem vörustjóri. Viðar hefur starfað í söludeild Póstsins frá árinu 2010.