Stjórn Markaðsstofu Norðurlands hefur ráðið Arnheiði Jóhannsdóttur í starf framkvæmdastjóra frá næstu áramótum. Arnheiður tekur við starfinu af Ásbirni Björgvinssyni sem hefur gegnt starfinu frá árinu 2008.

Fram kemur í tilkynningu að Arnheiður útskrifaðist sem rekstrarfræðingur frá Háskólanum á Akureyri árið 1999 og lauk ári síðar mastersprófi í alþjóðamarkaðsfræði frá The University of Strathclyde í Glasgow í Skotlandi.

Hún starfaði sem ráðgjafi hjá KPMG Ráðgjöf á árunum 2000-2003 og var verkefnastjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands2003-2011 en hefur síðan leitt uppbyggingu Air 66N flugklasans hjá Markaðsstofu Norðurlands. Hún hefur jafnframt verið stundakennari í markaðsfræðum við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri frá árinu 2006.

Í uppbyggingu flugklasans Air66N hefur Arnheiður stýrt kynningum og samningum við samstarfsaðila, fjármögnun klasans, markaðssetningu á Norðurlandi og Akureyrarflugvelli og öðrum þeim áherslum sem styðja það meginmarkmið Air 66N að koma á reglubundnu millilandaflugi um Akureyrarflugvöll. Hún segir þetta verkefni áfram verða eitt það stærsta í starfi Markaðsstofu Norðurlands en margar aðrar áherslur séu mikilvægar á komandi misserum og árum á þeirri leið að styrkja norðlenska ferðaþjónustu enn frekar.

Markaðsstofa Norðurlands (MN) hefur starfað frá árinu 2003 og er hún samstarfsvettvangur Norðurlands í ferðamálum. Helsta hlutverk MN er að samræma markaðs- og kynningarmál norðlenskrar ferðaþjónustu gagnvart innlendum og erlendum ferðamönnum. Skrifstofa MN er á Akureyri og eru starfsmenn MN og Air 66N fjórir talsins.