Björn Zoëga, fyrrverandi forstjóri Landspítalans, hefur tekið við sem aðalframkvæmdastjóri lækningasviðs (Chief Medical Officer) sænsku GHP samstæðunnar. Þetta kemur fram í upplýsingum frá fyrirtækinu, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum.

GHP er einkarekið heilbrigðisfyrirtæki sem rekur 18 heilsugæslustöðvar á Norðurlöndunum og í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Fyrirtækið er eitt stærsta sinnar tegundar í Norður-Evrópu og er skráð í sænsku Kauphöllina.

Björn hefur frá árinu 2016 verið forstjóri GHP Stockholm Spine Center og GHP Ortho Center Stockholm, auk þess að vera forstjóri GHP Spine Center Göteborg frá því í mars á þessu ári. GHP Stockholm Spine Center er bæklunarspítali sem gerir flestar hryggjaraðgerðir af öllum spítölum á Norðurlöndum, eða á milli 1.700 og 1.800 aðgerðir á ári. Einnig situr Björn í stjórn Alvotech.

Sem aðalframkvæmdastjóri lækningasviðs GHP mun Björn vera ábyrgur fyrir læknis- og meðferðarleiðbeiningum fyrirtækisins, stuðla að aukinni þekkingu stjórnunarteymis GHP og vera læknisfræðilegur talsmaður fyrir GHP, þar sem það á við.

Um sex ára skeið var Björn framkvæmdastjóri lækninga á Landspítalanum og forstjóri spítalans. Hann lét af störfum á Landspítalanum í september 2013, meðal annars vegna niðurskurðar í útgjöldum til spítalans og fjárskorts.