GHP Stockholm Spine Center, einkarekinn bæklunarspítali í Stokkhólmi í Svíþjóð, hefur ráðið Björn Zoëga sem forstjóra. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. GHP Stockholm Spine Center gerir flestar hryggjaraðgerðir af öllum spítölum á Norðurlöndum, eða á milli 1.700 og 1.800 aðgerðir á ári.

Björn var um sex ára skeið framkvæmdastjóra lækninga á Landspítalanum og  forstjóri spítalans. Hann lét af störfum á Landspítalanum í september 2013. Í samtali við Morgunblaðið segir hann að nýja starfið sé „ótrúlega spenanndi". Hann segir að hlutirnir hafi gerst hratt því einungis séu tæpar þrjár vikur síðan fyrst var haft samband við hann vegna starfsins.

Björn mun hefja störf hjá sænska spítalanum í mars en einnig sinna störfum á Íslandi en hann er meðal annars í stjórn Alvotech.