Ferdinand Hansen hefur verið ráðinn í starf gæða- og öryggisstjóra GG Verks. Hann lætur um leið af störfum sem gæða- og verkefnastjóri hjá Samtökum iðnaðarins en þar hefur hann starfað frá árinu 1999. Þetta kemur fram í tilkynningu frá GG Verki.

Í starfi sínu hjá Samtökum iðnaðarins setti hann upp, kenndi og aðstoðaði við viðhald og sérlausnir á hundruðum gæðakerfa verktaka, framleiðenda og þjónustuaðila.  Þá hefur hann kennt gæðastjórnun í Háskólanum í Reykjavík.

Ferdinand lauk gráðu í framleiðslufræði frá Skive Tekniske Skole og hefur réttindi sem húsasmíðameistari og byggingarstjóri. Áður en hann hóf störf hjá Samtökum iðnaðarins starfaði hann meðal annars sem framkvæmdastjóri Trésmiðju Björns Ólafssonar og þá var hann verksmiðju- og framleiðslustjóri BÓ-Ramma (síðar BYKO).

GG Verk fékk ISO9001-gæðavottun árið 2015 og var þar með annar byggingarverktakinn á landinu til að ná þeim áfanga.