Í dag hafa fyrirtækin Radiomiðun ehf. og Ísmar ehf. verið sameinuð og verður nafn hins nýja fyrirtækis Radiomiðun-Ísmar ehf. Bæði fyrirtækin hafa verið í eigu eignarhaldsfyrirtækisins Eykis hf. frá árinu 2000, en stærstu hluthafar þar eru Kristján Gíslason, Olís hf., Eagle Investment Holding S.A., Brú Venture Captial hf. og MP fjárfestingabanki.

Radiomiðun-Ísmar ehf. mun einbeita sér að sölu og þjónustu á landmælingatækjum, búnaði fyrir verktaka, siglinga- og fiskileitartækjum, gervihnattafjarskiptum og hugbúnaðarlausnum fyrir skip.

Við sameiningu fyrirtækjanna verður til öflugasta fyrirtæki landsins á sínu sviði þar sem til staðar er fjárhagslegur styrkur, heimsþekkt umboð og áralöng reynsla og þekking starfsfólks, sem er forsenda þess að hægt er að byggja upp enn sterkara fyrirtæki.

Jón Tryggvi Helgason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fyrirtækisins.