Radisson Blu hótelin á Íslandi hlutu þrenn verðlaun á World Travel Awards sem veitt voru í Aþenu þann 2. ágúst. Radisson Blu 1919 hótel var valið leiðandi hótel á Íslandi í sjöunda sinn. Radisson Blu Hótel Saga var valið leiðandi viðskiptahótel á Íslandi og fékk einnig verðlaun í flokknum leiðandi orlofsdvalarstaður Íslands.

Í tilkynningu frá Radisson Blu segir að þessi verðlaun séu staðfesting á þeirri framúrskarandi þjónustu sem hótelin leggja allan sinn metnað í að veita sínum gestum.

World Travel Awards (WTA) hafa verið veitt árlega síðan 1993 og leitast við að viðurkenna og verðlauna framúrskarandi gæði á öllum sviðum ferðaþjónustunnar. Í tilkynningunni segir að WTA sé í dag heimsþekkt merki hótela, flugvalla og annarra fyrirtækja í greininni.