Radisson SAS hótelin heita nú Radisson Blu. Á Íslandi á nafnabreytingin við um Hótel Sögu við Hagatorg og 1919 Hótel við Pósthússtræti sem heita eftir breytingu Radisson Blu Hótel Saga og Radisson Blu 1919 Hótel.

Í tilkynningu kemur fram að þegar vinna hófst við leit að nýju nafni var nafnið Blu vinnuheitið á verkefninu, en fljótlega kom í ljós að nafnið endurspeglar allt sem Radisson SAS stóð fyrir og það sem menn leituðu eftir.

Blu er dregið af bláa kassanum í merki Radisson SAS. Þá kemur fram að breytingin er eingöngu bundin við nafnið og merkið, engar breytingar verða gerðar á hönnun, starfsemi eða þjónustuframboði hótelanna.

Radisson SAS varð til árið 1994 þegar SAS International Hotels (SIH) og Radisson í Evrópu, Mið-Austurlöndum og Afríku sameinuðust.

Breyttar áherslur innan SAS group urðu til þess að stjórnendur þess ákváðu að selja hlut fyrirtækisins í eignarhaldsfélaginu Rezidor SAS. Í beinu framhaldi var hlutafélagið Rezidor Hotel Group stofnað og skráð í kauphöllina í Stokkhólmi. Rezidor Hotel Group rekur nú yfir 360 hótel í 55 löndum.