Sérfræðingar IFS Greiningar ráðleggja fjárfestum að selja hlutabréf sín í Eimskipi. Í nýju virðismati IFS á félaginu er virðismatsgengi Eimskips metið á 244 krónur á hlut. Við upphaf viðskipta í Kauphöllinni í dag var gengi bréfa í Eimskipi 273 krónur á hlut. Að mati IFS er virði bréfa í félaginu því um 10% lægra en markaðsgengi þess.

„Sjóðstreymismat okkar gefur sannvirðisgengi 1,5 evrur á hlut eða 244 kr. fyrir hluti í Eimskip. Þar sem gengið er yfir 270 mælum við með sölu að svo stöddu, enda hafa fjárfestar grætt vel á hlutum sínum, amk. þeir sem keyptu seint á síðasta ári eða snemma á þessu,“ segir í uppfærðu virðismati IFS Greiningar. Bent er á að hlutabréf í félaginu hafi hækkað um meira en 25% í verði á innan við þremur mánuðum. „Og það í félagi sem starfar í tiltölulega stöðugri atvinnugrein eða amk. ekki vaxtageira. Eðlilegt er að spurt sé hvort svo brött verðbreyting eigi sér innstæðu í betri rekstarhorfum félagsins frá því sem var eða hvort mikilsverð breyting hafi orðið á fjármálamarkaði, sem gera má ráð fyrir að haldist til lengri tíma,“ segir ennfremur í virðismatinu.

Eimskip birti uppgjör fyrir árið 2012 síðastliðinn föstudag. IFS segir þróun á síðasta ári hafa verið í jákvæða átt, ef horft sé framhjá einskipiliðum sem hækkuðu arðsemi rekstrarins árið 2011 en lækkuðu í fyrra. Rekstrartekjur hækkuðu úr 378,3 milljónum evra í 414,3 milljónir evra eða um 9,5%. EBITDA hækkaði um 8,8% og nam 40,8 milljónum evra að frádregnum einskiptiliðum.

Eins og fyrr segir meta sérfræðingar IFS Greiningar virðismatsgengi Eimskips á 244 krónur á hlut. Markgengi félagsins eftir níu til tólf mánuði er metið á 265 krónur á hlut, sem er um 3% lægra en gengi bréfa í Eimskipi í dag.