Ákveðið hefur verið að frysta ráðningar starfsmanna hjá þýska bankanum Deutsche Bank, að því er fréttastofan Reuters hefur eftir heimildarmanni innan bankans. Fjárfestar hafa nú áhyggjur af því að sektargreiðslur til bandarískra yfirvalda geti gengið af bankanum dauðum.

Ráðningarbannið er hluti af viðbrögðum yfirstjórnar bankans við þeirri stöðu sem upp er komin.

Í október í fyrra greindi bankinn frá áformum um að fækka starfsmönnum um 9.000 og selja dótturfyrirtæki sem væru utan kjarnastarfsemi bankans. Nú, um ári seinna, eru starfsmenn hins vegar fleiri en þeir voru þá. Um mitt þetta ár voru starfsmenn 101.300 talsins, en voru 98.600 ári fyrr.