Fyrirtækið TeqHire sérhæfir sig í ráðningum og ráðgjöf með áherslu á upplýsingatæknimarkað. Fyrirtækið var stofnað árið 2013 og hlaut nýverið viðurkenningu fyrir vöxt í veltu frá Vaxtarsprotanum. Samhliða auknum umsvifum hafa verið gerðar töluverðar breytingar hjá ráðninga- og ráðgjafaþjónustunni TeqHire.com upp á síðkastið að því er kemur fram í tilkynningu.

Nýverið gengu Kathryn Gunnarsson og Oddur Sturluson til liðs við félagið en þau koma til með að starfa á sviði ráðninga með áherslu á hugbúnaðarsérfræðinga og upplýsingatæknistjórnendur.

Kathryn hefur starfað í mannauðsmálum og ráðningum í yfir 15 ár og meðal annars gegnt hlutverkum mannauðsstjóra Spencer Ogden, Saffron Digital og Leon Max í London auk þess að hafa sinnt sjálfstæðri ráðgjöf og stýrt hópi útibúa HSBC bankans.  Kathryn gekk til liðs við TeqHire undir lok 2016 og veitir ráðningum á sviði viðskiptagreindar forstöðu.

Oddur mun ganga til liðs við ráðningasvið félagsins auk þess að veita sprota- og nýsköpunarráðgjöf. Oddur hefur verið verkefnastjóri hjá Icelandic Startups þar sem hann stýrði ýmsum viðskiptahröðlum á borð við Startup Tourism og Startup Energy Reykjavik auk þess að veita fyrirtækjum ráðgjöf um vöruþróun, markaðssetningu og fjármögnun. Þar að auki starfar hann sem framkvæmdastjóri Lemonsqueeze á Íslandi og stjórnarmaður hjá Samtökum Sprotafyrirtækja.

Þá hafa orðir breytingar á hlutverkum eigenda. Kristján Már Gunnarsson, framkvæmdastjóri, stýrir nú vöruþróun félagsins við þróun á mannauðsmiðaðri hugbúnaðarlausn til að bæta ráðningarferla þekkingarstarfsfólks. Stefán Örn Einarsson starfar nú að miklu leiti erlendis og fer fyrir hugbúnaðarteymum félagsins í Úkraínu, Rúmeníu og SA-Asíu.