Hjónin Ingibjörg Pálmadóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson fjármögnuðu fjárfestingar sínar í Evrópu og á Íslandi með fé frá félagi skráðu í Panama. Þetta kemur fram í gögnum frá lögmannsstofunni Mossack Fonseca sem Kjarninn, Stundin og Reykjavik Media hafa rannsakað og fjalla ítarlega um í dag.

Félagið í Panama nefnist Guru Invest og var stofnað haustið 2007.  Hlutafé þess var frá upphafi í eigu Ingibjargar Pálmadóttur. Jón Ásgeir Jóhannesson fékk hins vegar umboð til að skuldbinda félagið, ásamt Ingibjörgu.

Samkvæmt umfjölluninni er rekstur íþróttavöruverslunarinnar Sports Direct á Íslandi að hluta í eigu Guru Invest, í gegnum lúxemborgska félagið Rhapsody Investments (Europe). Þá hafi Guru Invest greitt rúmlega tvo milljarða króna inná skuld Fjárfestingafélagsins Gaums , móðurfélags Baugs, við slitastjórn Glitnis eftir hrun.

Einnig kemur fram að aflandsfélagið Jovita, í eigu Jóns Ásgeirs, hafi lánað íslensku félagi hans, Þú Blásól, jafnvirði hátt í hundrað milljóna króna nokkrum vikum fyrir hrun. Ingibjörg hefur ekki svarað spurningum Kjarnans um hvaðan það fé, sem er vistað í Guru Invest í Panama, komi.

Á fréttavef DV er birt yfirlýsing frá Ingibjörgu. Þar segir hún: „Ég hef verið búsett erlendis til fjölda ára. Þar af leiðandi er ég skattgreiðandi á Íslandi einungis að því leyti sem tekur til minna persónulegra eigna, fyrirtækja og tekna innanlands. Það hefur löngum verið ljóst að ég hef stundað viðskipti erlendis, og er það ekkert launungarmál, og í gegnum það tengst fjölda félaga erlendis, sem í einhverjum tilvikum kunna að flokkast sem aflandsfélög.“ Þá sagði hún einnig að ávallt hafi verið staðið skil á sköttum og gjöldum af þeim félögum sem henni tengjast.

Jón Ásgeir var fyrir hrun aðaleigandi Gaums, sem var höfuð viðskiptaveldis Bónus-fjölskyldunnar, og stærsti eigandi verslunarrisans Baugs. Ingibjörg er í dag aðaleigandi fjölmiðlafyrirtækisins 365.

Í frétt DV segir Ingibjörg einnig að fjölmiðlafyrirtækið 365 sé ekki með nein tengsl við aflandsfélög. Þar segir hún: „Varðandi eignarhald mitt í 365 miðlum, þá er það m.a. í gegnum eignarhaldsfélagið Moon Capital í Luxemborg og einnig í gegnum íslenskt félag. Þetta hefur verið opinbert í mörg ár, og kemur fram á heimasíðu 365. Auk þess hefur þetta verið tilkynnt til Fjölmiðlanefndar í samræmi við fjölmiðlalög og birt á vef Fjölmiðlanefndar. Moon Capital hefur ekki tengsl við aflandsfélög,“