Alþjóðleg ráðstefna um breytt öryggisumhverfi smáríkja verður haldin á vegum Rannsóknaseturs um smáríki við Háskóla Íslands þriðjudaginn 26. júní frá 08:30-17:30 í Norræna húsinu.

Hátt í 30 frummælendur frá 13 löndum og fjórum heimsálfum koma saman til að ræða helstu áskoranir og tækifæri smáríkja til áhrifa á sviði öryggismála. Sjaldan eða aldrei hefur verið jafn mikilvægt að búa til vettvang fyrir slíka umræðu í þeirri spennu sem nú ríkir í samskiptum ríkja.

Viðfangsefnin spanna vítt svið öryggismála en á meðal þess sem verður fjallað sérstaklega um eru skoðanir og upplifun íslensks almennings á öryggi, staða hlutlausra Evrópuríkja, aukið samstarf Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í kjölfar átakanna á Krímskaga, áhrif aukinnar spennu í samskiptum vesturveldanna við Rússland á smáríki, samskipti Nýja-Sjálands við Kína, möguleg aðild Georgíu að NATO, öryggisáskoranir smáríkja í Afríku og orkuöryggi smáríkja. Ráðstefnan er hluti af SSANSE, þriggja ára rannsóknaverkefni sem Rannsóknasetur um smáríki við Háskóla Íslands leiðir með styrk frá NATO.