Samtök byggingar- og rekstaraðila stúdentahúsnæðis á Norðurlöndunum, NSBO (the Nordic Assocation for Student Housing), halda ráðstefnu hér á Íslandi 29.-30. maí í stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, Veröld.

Megintilgangur NSBO er að deila þekkingu og hugmyndum um húsnæðismál stúdenta og málefni þeim tengd á Norðurlöndunum. Á þessari tveggja daga ráðstefnu verður m.a. rætt um þau lykilatriði sem nauðsynleg eru fyrir uppbyggingu stúdentasamfélags til að efla lífskjör stúdenta og helstu áskoranir í húsnæðisþróun. Einnig verður rætt um framtíðarsýn Reykjavíkurborgar á Reykjavík sem háskólaborg og þróun á hugmyndum okkar um heimili þar sem aukin samnýting í hagkerfinu kallar á nýjar leiðir við uppbyggingu samfélaga.

„Við erum mjög stolt af því NSBO haldi ráðstefnu sína hér í ár, en það gefur okkur tækifæri til að kynna okkar vinnu og hugmyndir um stúdentasamfélag og þá þróun sem er að eiga sér stað í uppbyggingu stúdentahúsnæðis.“ segir Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta. „Í áratugi höfum við með árangursríkum og hagkvæmum hætti byggt smærri íbúðareiningar fyrir stúdenta. Við rekum í dag um 1200 slíkar og hyggjum á 600 til viðbótar á næstu árum. Í þeim húsnæðisvanda sem við sjáum ungt fólk eiga í þessa dagana, er okkar helsta markmið að leita fleiri leiða til að hjálpa stúdentum að búa vel en ódýrt og geta þannig sinnt námi áhyggjulaust.