Erlendir ferðamenn á Íslandi sem komu hingað í tengslum við ráðstefnur eða viðburði af einhverju tagi voru ásamt fylgdarliði um 74.000 talsins árið 2013 samkvæmt könnun Meet in Reykjavík. Það er áætlað að rúmlega 40.000 ráðstefnugestir ásamt fylgdarliði hafi komið til Íslands árið 2013 en áætlað er að um 25% ráðstefnugesta taki fjölskyldu eða vin með sér í ferð hingað.

Árið 2013 komu hingað 13.000 hvataferðagestir og ríflega 20.000 viðburða- og sýningagestir. Samkvæmt könnun meðal aðildarfélaga hefur fjöldi alþjóðlegra ráðstefnugesta aukist um 39% frá árinu 2011-2013 og fjöldi alþjóðlegra hvataferðagesta aukist um 49% á sama tíma.

Sé eingöngu horft til ráðstefnumarkaðarins þá hefur orðið umtalsverð breyting á landslagi alþjóðlegra ráðstefna hér á landi með tilkomu Hörpu. Ef teknar eru allar stórar ráðstefnur frá árinu 1977 sem eru með yfir 1000 manns þá hefur árlegur fjöldi þeirra nífaldast frá því Harpa opnaði árið 2011. Það er hraustleg innspýting fyrir hagkerfi landsins.

Nánar er fjallað um málið í Fundum og ráðstefnum, sérblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .