*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 11. febrúar 2017 16:02

Ráðstefnugestum verður að fjölga

Þorsteinn Örn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Meet in Reykjavík, segir að fjölgun ráðstefnugesta sé forsenda aukinnar arðsemi í ferðaþjónustu.

Snorri Páll Gunnarsson
Haraldur Guðjónsson

Ísland nýtur sífellt meiri vinsælda sem áfangastaður fyrir erlendar ráðstefnur, fundi, hvataferðir og viðburði.

Með góða innviði á borð við gistingu, ráðstefnuaðstöðu og afþreyingu, ásamt auðveldu aðgengi að landinu í gegnum góðar flugsamgöngur, hefur sértækum gestum í hópi ferðamanna á Íslandi – ráðstefnu-, hvataferða- og viðburðagestum – fjölgað meira heldur en á heimsvísu og í Evrópu frá árinu 2011. Stígandi vöxtur hefur verið í fjölda alþjóðlegra ráðstefna hér á landi, einkum eftir tilkomu Hörpu. Sértækir gestahópar hafa skilað stöðugt vaxandi gjaldeyristekjum inn í þjóðarbúið, en áætlað er að þær hafi numið 40 milljörðum króna í fyrra og 32 milljörðum árið áður.

Þorsteinn Örn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Meet in Reykjavík (Ráðstefnuborgin Reykjavík), sem er samstarfsvettvangur um markaðssetningu á Reykjavík og Íslandi sem áfangastað fyrir alþjóðlegar ráðstefnur, viðburði og hvataferðir, segir þessa sértæku gestahópa aldrei hafa skipt meira máli en nú. Ákveðin umskipti séu að eiga sér stað í aðstæðum ferðaþjónustunnar hér á landi um þessar mundir og að aðeins aukin hlutdeild ráðstefnu-, hvataferða- og viðburðagesta í ferðamannaflórunni geti viðhaldið áframhaldandi arðsemi í greininni.

Lungað er að skreppa saman

„Á milli 2010 og 2015 eða 2016 höfðum við mikla auka afkastagetu til að taka á móti ferðamönnum, sem hafa verið helsti drifkrafturinn á bak við núverandi hagvaxtarskeið án þess þó að auka framleiðni í landinu,“ segir Þorsteinn. „Þetta var eins og risastórt lunga. Nýting á gistirými um allt land var tiltölulega lágt og atvinnuleysi var talsvert. Skrifstofuhúsnæði var víða breytt í gistirými og gríðarlegt magn af íbúðum og herbergjum fór í leigu á Airbnb. Fjölgun ferðamanna réðst af eftirspurn og hagvaxtaráhrif þeirra voru jákvæð, óháð tegund ferðamannsins.

Í fyrra varð hins vegar grundvallarbreyting á þessum aðstæðum sem fáir hafa áttað sig á. Fjölgun ferðamanna ræðst í auknum mæli af framboði vinnuafls og þjónustu, einkum gistirými. Það þrengir að innviðunum, álagið á auðlindina – náttúruna – er að aukast og það komast oft færri að en vilja. Ónýtt aukageta til að taka á móti þeim sem vilja koma hingað er ekki lengur til staðar,“ segir Þorsteinn.

Undir slíkum kringumstæðum skiptir tegund gesta höfuðmáli. „Sértækir gestir dreifast jafnt yfir árið og eyða að meðaltali helmingi meira fyrir hverja gistinótt heldur en meðalferðamaðurinn. Innviðirnir nýtast betur og skila meiri arðsemi á hverja gistieiningu. Svo eru þeir í góðu jafnvægi við náttúruna. Þeir eyða hlutfallslega meiri tíma á malbikinu og eru nánast undantekningarlaust í fylgd fagaðila í náttúrunni. Eina leiðin til að fá áframhaldandi arðsemi og hagsældarvöxt út úr ferðamannaiðnaðinum er því að styrkja blönduna og auka hlutfall sértækra gesta í hópi ferðamanna til landsins, en þeim fjölgar hægar heldur en heildarfjöldi ferðamanna,“ segir Þorsteinn.

Nánar er fjallað um málið í Fundir & ráðstefnur, aukablaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.