Ráðstöfunartekjur heimilanna jukust um 10,8% árið 2015. Ráðstöfunartekjur á mann jukust um 9,6% milli ára og kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann um 7,9%. Þetta kemur fram í Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans.

Kaupmáttur ráðstöfunartekna eykst því talsvert annað árið í röð. Árið áður nam hækkunin 5,3%.

„Ráðstöfunartekjur heimilanna  samanstanda af launa tekjum, eignatekjum, tilfærslutekjum og reiknuðum rekstrarafgang i einstaklingsfyrirtækja.  Til frádráttar koma svo eigna - og tilfærsluútgjöld. Ráðstöfunartekjum er ætlað að mæla það sem  heimilin hafa til ráðstöfunar eftir að skattar hafa  verið greiddir og  þar sem þjóðin er sífellt að stækka  er nákvæmara að tala um ráðstöfunartekjur á mann,“ segir í Hagspá Landsbankans.

Er sparnaður að aukast?

Ef allt er eðlilegt þá ættu ráðstöfunartekjur að duga til að fjármagna einkaneyslu og svo ættu heimilin einnig að geta lagt eitthvað til hliðar í sparnað. „Á síðustu árum hafa tölur Hagstofunnar um heildarráðstöfunartekjur og einkaneyslu heimilanna sýnt að einkaneyslan hefur verið heldur meiri en nemur ráðstöfunartekjum,“ segir í Hagspánni.

Á árinu 2015 var staðan hins vegar orðin sú að einkaneysla heimilanna og ráðstöfunartekjur voru jafn miklar. Ráðstöfunartekjurnar hækkuðu um tæp 11% milli ára en einkaneyslan um 5%. Þetta er því vísbending um það að heimilin hafi aukið sparnað sinn, sem gæti meðal annars verið notaður til að minnka skuldabyrði.