Yfirlit yfir þróun ráðstöfunartekna heimilanna (heildartekjur – skattar) frá árinu 1997-2012, eftir tekjutíundum, bendir til þess að ráðstöfunartekjur einstaklinga sem teljast til 80% launhafa hafi vaxið á bilinu 7-12% á tímabilinu. Ráðstöfunartekjur þeirra sem flokkast undir 9. tekjutíundina hafa aukist um 20% frá 1997 og um 32% raunaukning hefur átt sér stað ef litið er til ráðstöfunartekna efstu 10% tekjuhópsins.

Þetta má ráða af tölum sem Hagstofan birti fyrr í haust en gögnin voru unnin upp úr skattframtölum einstaklinga. Gögnin varpa einnig ljósi á þá aukningu sem varð á ráðstöfunartekjum efsta tekjuhópsins á Íslandi upp úr aldamótunum.

Í dag eru meðalráðstöfunartekjur einstaklings í efsta tekjuhópnum, þ.e. 10. tíundinni, rúmlega 1.100 þús. krónur á mánuði, miðað við rúmlega 2.500 þús. krónur á mánuði, á verðlagi ársins 2012, þegar hæst stóð árið 2007. Einstaklingar

í fimmtu tekjutíundinni, þ.e. þeir sem hafa miðgildi tekna á Íslandi,eru með 250 þús. krónur á mánuði til ráðstöfunar eftir skatta. Samkvæmt reiknivél fyrir neysluviðmið sem má finna á vefsíðu velferðarráðuneytisins eru heildarútgjöld heimilis sem samanstendur af tveimur fullorðnum og tveimur börnum, án húsnæðiskostnaðar, um 550 þús. krónur á mánuði ef gert er ráð fyrir tómstundum barna.

Tveir einstaklingar með miðgildi ráðstöfunartekna íslenskra heimila eru samkvæmt gögnum Hagstofunnar þó aðeins með um hálfa milljón á mánuði til ráðstöfunar. Þann fyrirvara þarf að hafa á gögnum fyrir lægstu tekjutíundirnar að samkvæmt gagnarunni ríkisskattstjóra telst einstaklingur vera orðinn sjálfstæður skattaðili 16 ára gamall. Stór hluti yngri einstaklinga hefur takmarkaðar tekjur yfir árið og dregur því eflaust niður tekjumeðaltal lægstu tíundanna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .