Velferðarráðuneytið mun innan skamms tíma flytja úr Hafnarhúsinu við Tryggvagötu, þar sem það er nú staðsett, vegna myglusvepps sem hefur verið viðvarandi í húsinu. Þetta var tilkynnt á starfsmannafundi ráðuneytisins í dag.

Sameiginleg ákvörðun viðkomandi ráðherra og húseigandans, Faxaflóahafna, var tekin um að rifta gildandi leigusamningi um húsið. Ekki hefur tekist að uppræta myglusvepp í þeim hluta hússins þar sem er starfsemi velferðarráðuneytisins. Verkfræðistofan EFLA telur að ráðast þurfi þar í verulegar framkvæmdir og endurbætur.

Hafnarhúsið var reist árið 1933 og fjórðu hæð hússins var bætt við árið 1960. Í skýrslu verkfræðistofunnar segir meðal annars að niðurstöður rannsókna gefi sterkar vísbendingar um að loftgæðum innandyra í suðurhluta 4. hæðar sé ábótavant.

Rakavandamál eru víða og mygluvöxtur kominn í byggingarefni á nokkrum stöðum. Skemmdir eru einkum staðsettar í gólfi, veggjum og þaki upp við útveggi hússins og lekavandamálum tengt turnum (5. hæð) í þaki.