Fjármálaráðuneytið átti enga aðkomu að samkomulagi um skuldauppgjör á milli nýja Landsbankans og slitastjórnar gamla Landsbankans, að sögn Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra. „Bankinn hefur sína stjórn og hún tekur ákvörðun um skilmála,“ sagði hann og benti á að gert sé ráð fyrir því að Landsbankabréfið verði tekið til umræðu í þingi á seinni stigum.

Í samkomulaginu sem greint var frá í síðustu viku felst að lokagreiðsla skuldabréfs nýja Landsbankans gagnvart þeim gamla sem samið var um á milli bankanna í desember árið 2009 upp á 226 milljarða króna verði innt af hendi í október árið 2026 í stað 2018. Endurgreiðslur verður á tveggja ára fresti og dreifist nokkuð jafnt. Landsbankinn hefur heimild til að greiða skuldina að hluta eða að fullu upp án kostnaðar, hvenær sem er á tímabilinu. Þá verða vaxtakjör óbreytt til október árið 2018, þ.e. 2,9% álag ofan á LIBOR en hækka eftir það. Heiðar Guðjónsson fjárfestir sagði í aðsendri grein sem hann birti um skuldabréfið enga lausn að lengja í láninu. Þá taldi hann skilmálabreytingar gera afnám hafta erfiðari en ekki auðveldari og sé það afleikur ef Seðlabanki og fjármálaráðuneyti samþykki breytinguna.

Þá sagði Heiðar það enga lausn á skuldavandanum að framlengja hann á hærri vöxtum, líkt og ætlunin er í nýja lánssamningnum. Á endanum sé það íslenska þjóðin sem þurfi að borga fyrir það sem aflaga fer.

Ekki hefðbundin fjármögnun

Það var Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, sem spurði Bjarna út í afstöðu hans til skilmála skuldauppgjörsins og ástæðu þess að hún var hvorki rædd á samráðsvettvangi flokka á Alþingi um afnám gjaldeyrishafta né í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Hann vildi jafnframt frá að við hvers vegna vaxtakjör bankans eru lakari en stjórnvöld fengu árið 2009 þegar vaxtakjör voru mun lakari.

Um fjármögnun skuldauppgjörsins og vaxtakjör sagði Bjarni ekki um hefðbundna fjármögnun að ræða. Ekki sé hægt að líkja henni við kringumstæðurnar sem voru upp árið 2009 enda hafi þær verið óeðlilegar. Hann benti á að Landsbankanum sé heimilt að greiða lánið upp hvenær sem er fái hann betri kjör annars staðar.