Ríkisendurskoðun hvetur innanríkisráðuneytið til að beita sér fyrir því að Ríkissaksóknari fái nauðsynlegar fjárveitingar til að geta sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Þá telur Ríkisendurskoðun að kveða eigi skýrt á um sjálfstæði embættisins í lögum. Þetta kemur fram í nýrri frétt á vef Ríkisendurskoðunar .

Þar segir að álag á embætti ríkissaksóknara hafi aukist verulega á undanförnum árum, en fjárveitingar hafi hins vegar ekki aukist í takti við aukinn málafjölda hjá embættinu. Ein afleiðing þessa sé að afgreiðslutími sakamála hjá embættinu hafi að meðaltali lengst verulega.

Að mati Ríkisendurskoðunar fer langur málsmeðferðartími hjá Ríkissaksóknara í bága við réttarfars- og stjórnsýslureglur. Sú regla að hraða beri meðferð sakamála er ein af grundvallarreglum íslensks réttarfars. Að mati Ríkisendurskoðunar er það alvarleg staða bæði fyrir brotaþola og sakborninga að sakamál sem varða þá dragist úr hömlu.