Nokkrum dögum áður en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í ræðu að hægt væri að afnema höft án þess að ógna efnahagslegum stöðugleika kom út skýrsla fjármálaráðuneytisins þar sem einmitt er bent á að hætta sé á aukinni verðbólgu vegna afnáms hafta.

Í ræðu Sigmundar Davíðs á flokksþingi Framsóknarflokksins um síðustu helgi sagði hann að stjórnvöld hygðust hrinda í framkvæmd áætlun um losun gjaldeyrishafta áður en þing lyki störfum.

„Sérstakur stöðugleikaskattur mun þá skila hundruðum milljarða króna og mun ásamt öðrum aðgerðum gera stjórnvöldum kleift að losa um höft án þess að efnahagslegum stöðugleika verði ógnað,“ sagði Sigmundur Davíð.

18% af lánasafninu

Sú staðhæfing forsætisráðherra um að hægt sé að losa höftin án þess að ógna efnahagslegum stöðugleika stangast að nokkru leyti á við það sem kemur fram í nýrri skýrslu fjármálaráðuneytisins um stefnu í lánamálum ríkisins 2015-2018.

Í skýrslunni, sem kom út 1. apríl, kemur fram að verðtryggð lán ríkissjóðs hafi numið 263 milljörðum króna um síðustu áramót en það er um 18% af lánasafni ríkisins. Heildarskuldir ríkissjóðs námu tæpum 1.500 milljörðum.

„Vægi verðtryggðra skulda í heildarlánasafni er markvisst haft lítið því hætta er á aukinni verðbólgu ef krónan veikist við afnám gjaldeyrishafta,“ segir í skýrslunni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .