Fjármála- og efnahagsráðuneytið (FJR) beindi þeim tilmælum til sýslumannsembætta landsins að ekki skildi endurgreiða ofgreidd stimpilgjöld, í tengslum við kaup á fyrsta húsnæði, í tilvikum sem áttu sér stað fyrir úrskurð sem kveðinn var upp í sumar. Þetta kemur fram í nýjum úrskurði yfirskattanefndar (YSKN).

Í sumar kvað YSKN upp úrskurð þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að kaupandi fyrstu fasteignar, sem áður hafði verið þinglýstur eigandi að íbúð sem hann hafði hlotið í arf, ætti rétt á að fá afslátt á stimpilgjöldum. Áður hafði sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hafnað því vegna arftökunnar.

Eftir að sagt var frá úrskurðinum sendi annar einstaklingur inn beiðni til sýslumanns. Sá hafði keypt íbúð sumarið 2018, áður verið þinglýstur eigandi sökum arftöku, og ekki fengið afslátt. Vildi hann nú að mál hans yrði endur upptekið í ljósi úrskurðarins frá í sumar.

Sjá einnig: Fékk ekki afslátt vegna arftöku

Því neitaði sýslumaður hins vegar. Benti sýslumaður á að frá 2015 og þar til í sumar hefði verið í gildi úrskurður FJR þar sem afsláttarákvæðið var túlkað samkvæmt orðanna hljóðan og enginn afsláttur gefinn frá því. Þá hefði FJR sent bréf í sumar þar sem fram kom að ráðuneytið teldi að úrskurðurinn gæti aðeins haft framvirk en ekki afturvirk áhrif. Ekki ætti að leiðrétta hlut þeirra sem ranglega var gert að greiða stimpilgjaldið.

Þessu undi kærandi ekki og taldi framkvæmdina ekki standast lög um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda auk þess að jafnræðisregla stjórnsýsluréttarins væri ekki virt með þessari framgöngu.

YSKN taldi ekki unnt að fallast á þessi rök sýslumanns eða ráðuneytisins. Benti nefndin á að breyting á stjórnsýsluframkvæmd, vegna niðurstöðu æðra stjórnvalds eða dómstóla, gæfi oft tilefni til að endurupptaka eldri mál. Málsgögn bentu til þess að málið nú væri nær alveg eins og málið frá í sumar. Var því fallist á kröfu kæranda um endurgreiðslu og lagt fyrir sýslumann að græja málið.