Til greina kemur að Reykjavíkurborg veiti Orkuveitu Reykjavíkur eiginfjárframlag. Borgin hefur haft til taks handbært fé gagngert til að sýna fram á getu til að koma Orkuveitunni til aðstoðar ef þarf. Í samþykkt borgarráðs frá því í júlí á síðasta ári segir: „Hafin verði markviss vinna við að auka trúverðugleika Reykjavíkurborgar sem bakábyrgðaraðila gagnvart lánamörkuðum, m.a. með því að viðhalda sterkri lausafjárstöðu A-hluta borgarsjóðs á árinu í a.m.k. 10-12 milljörðum króna, en sú aðgerð mun einnig hafa áhrif á aðgengi og lánskjör við samningsgerð um endurfjármögnun.“ Ekki er sérstaklega rætt um Orkuveitu Reykjavíkur í samþykktinni, þó gera megi ráð fyrir að félagið er ástæða samþykktarinnar.

Nú stendur yfir aukafundur í borgarráði um málefni Orkuveitunnar. Að honum loknum mun stjórn OR funda, að því er Vísir.is greinir frá.

Ársreikningur OR fyrir síðasta ár verður birtur í dag ásamt aðgerðum sem ráðist verður í til að bregðast við fjárhagsvanda félagsins. Ársreikningurinn var kynntur stjórn OR í gær. Miðað við síðasta birta árshlutauppgjör námu vaxtaberandi skuldir OR samtals um 220 milljörðum króna. Afborganir á tímabilinu 1. september 2010 til 1. september 2011 nam um 15 milljörðum króna samkvæmt árshlutareikningnum. Líkt og komið hefur fram hefur gengið erfiðlega að endurfjármagna skuldir félagsins. Helsti bakhjarl OR, Norræni fjárfestingarbankinn, hefur til að mynda sagt að félagið komi í dag ekki til greina sem lántaki.