Nú stendur yfir fundur Evrópusambandsins í Brussel þar sem mögulegar auknar refsiaðgerðir gegn Rússlandi eru ræddar. Háværar raddir hafa verið uppi um að Evrópusambandið bregðist við ástandinu í Úkraínu og þær kröfur hafa aukist enn frekar í kjölfar þess að flugvélin MH17 var skotin niður yfir svæðinu. Frá þessu er sagt á vef BBC.

Leiðtogar Frakklands, Bretlands, Þýskalands og Bandaríkjanna ræddu mögulegar refsiaðgerðir gegn Rússlandi í gær og nú hefur málið verið tekið upp í Evrópusambandinu. Búist er við að fundi ljúki síðdegis í dag með nýjum refsiaðgerðum. Refsiaðgerðirnar sem um ræðir snúa að fjármálageiranum, orku- og varnarmálum. Samkvæmt frétt BBC stendur m.a. til að takmarka aðgang rússneskra banka að evrópskum mörkuðum og leggja á vopnasölubann.