Bayer, efna- og lyfjafyrirtækið þýska, hefur nú gert Monsanto - bandarískum matvælaframleiðanda - yfirtöku- og samrunatilboð. Fyrirtækin tvö eiga nú í viðræðum um málið. Frá þessu er sagt á vef New York Times.

Sameinuð gætu fyrirtækin tvö halað inn tekjum sem hljóða upp á ríflega 67 milljarða Bandaríkjadala - eða um það bil 8 þúsund milljarða íslenskra króna. Félagið sem úr samrunanum yrði væri gífurstórt, og sæi um allt frá ræktun erfðabreyttra matvæla til framleiðslu og þróunar lyfja og skordýraeiturs.

Monsanto sagðist í gær hafa tilboðið til skoðunar, en fulltrúar fyrirtækjanna hittust snemma dags í dag, fimmtudag, til þess að kanna sameiginlega hagsmuni og möguleika félaganna tveggja frá því að renna saman eður ei.

Stórir samrunar sem slíkir hringja ávallt viðvörunarbjöllum hjá samkeppniseftirlitum allflestra þjóða. Fyrir nokkru síðan gerði Monsanto yfirtökutilboð í annað fyrirtæki, Syngenta, sem hefði verið 47 milljarða Bandaríkjadala eða 5.687 milljarða króna virði.

Syngenta neitaði tilboðinu sí og æ, þar eð þeim fannst verðið og lágt, auk þess sem fyrirtækið taldi að samkeppniseftirlitsaðilar myndu ekki leyfa samrunann jafnvel þótt aðilarnir tveir kæmust að sameiginlegri niðurstöðu um sanngjarnt verð.