Stjórn HB Granda mun hittast næstkomandi fimmtudag til að ræða tillögu Útgerðarfélags Reykjavíkur, sem áður nefndist Brim, þess efnis að fresta kaupum félagsins á Ögurvík. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórn HB Granda.

Greint var frá því í morgun að Runólfur Viðar Guðmundsson, framkvæmdastjóri ÚR, hafi sent stjórn HB Granda bréf þar sem lagt var til að kaupum félagsins á Ögurvík yrði frestað.

Í gær var greint frá því að Gildi lífeyrissjóður , sem er fjórði stærsti hluthafi í HB Granda með 8,62% hlut, hefði lagt til að skipað yrði fjármálafyrirtæki til að meta kaup fyrirtækisins á öllu hlutafé í Ögurvík.

Tillaga sjóðsins verður tekin fyrir á næsta hluthafafundi sem fram fer þann 16. október næstkomandi. Verði hún samþykkt verður kaupunum frestað fram til 2. nóvember.