„Það hefur verið rætt um að taka milliþrepið út en ekkert hefur verið lagt fram með formlegum hætti við okkur,“ segir Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR og varaformaður ASÍ, í samtali við Morgunblaðið .

Þar er greint frá því að fjármálaráðherra og forsætisráðherra hafi fundað með fulltrúum frá ASÍ og SA og viðrað hugmyndir um skattalækkanir til að liðka fyrir kjaraviðræðum. Meðal þeirra hugmynda sem hafi verið ræddar séu að skattþrepunum fækki í tvö og persónuafsláttur hækki í 65 þúsund krónur.

„Við fögnum öllum góðum hugmyndum en þessar hugmyndir eru ekki komnar á það stig að við höfum eitthvað fast í hendi um það hvort ríkisstjórnin muni koma að með einhverjum hætti,“ segir Ólafía.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, segir í samtali við Morgunblaðið að fundað hafi verið reglulega með fulltrúum ríkisstjórnarinnar, m.a. með Bjarna Benediktssyni og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Hann segir að miðað við þá alvarlegu stöðu sem sé í kjaraviðræðum geti ríkisstjórnin ekki gefið sér langan tíma í að koma fram með tillögur. Þær þurfi að koma fram fyrir vikulok.