Forstjóri JPMorgan Chase hitti Eric Holder dómsmálaráðherra Bandaríkjanna í dag. Forstjórinn vildi ekki segja neitt um fundarefnið en fullvíst er að það er um mögulega sátt stjórnvalda og bankans. Wall Street Journal greinir frá.

Bankinn á yfir höfði sér málssókn vegna viðskiptum bankans á svonefndum undirmálslánum (e. subprime).

Samkvæmt heimildum blaðsins er mögulega sátt fólgin í greiðslu 7 milljarða dala í sekt og 4 milljarða dala niðurfellingar til lánþega. Samtals gerir 11 milljarða dala, rúmlega 1.300 milljarða króna.

Viðræður ráðuneytisins og bankans um sátt í málinu runnu nýlega út í sandinn og þá var talið að ráðuneytið myndi höfða mál gegn bankanum. Fundurinn í dag gæti hafa breytt því.