Önnur lota fulltrúa Bandaríkjanna og Evrópusambandsins um fríverslunarsamning þeirra á milli hefst í Brussel í dag. Ef af verður þá munu fríverslunarsamningurinn verða sá umfangsmesti sem um getur. Viðræðurnar hófust formlega í sumar og var stefnt að því að önnur lotan tæki við þeirri fyrstu. Sú varð hins vegar ekki raunin þegar starfsemi bandarísku stjórnsýslunnar lamaðist vegna deilna á bandaríska þinginu um fjárlög landsins auk þess sem strit var á milli Bandaríkjamanna og Þjóðverja þegar upp komst að bandaríska þjóðaröryggisstofnunin hafi hlerað farsíma Angelu Merkel, kanslara Þýskalands.

Breska ríkisútvarpið ( BBC ) segir John Kerry hafa hvatt leiðtoga ESB-ríkjanna til að láta hlerunarmálið ekki trufla viðræðurnar og hefja þær að nýju.

Fríverslunarsamningurinn snýr að þjónustuviðskiptum, fjárfestingum, orkumálum og fleiri mála. Horft er til þess að samningar náist fyrir lok næsta árs.