Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra sat í fyrradag fund innanríkis- og dómsmálaráðherra Evrópuríkja sem haldinn var á Ítalíu.

Á vef innanríkisráðuneytisins segir að Hanna Birna hafi á fundinum farið yfir þær umbætur sem nú sé unnið að hér á landi í málefnum innflytjenda og hælisleitenda „en sem kunnugt er miða þær breytingar að styttri málsmeðferðartíma, sjálfstæðri úrskurðarnefnd, fyrirhugaðri endurskoðun útlendingalaga og öflugu samstarfi við mannréttindasamtök á borð við Rauða krossinn.“

Hanna Birna fjallaði einnig um ákvörðun ríkisstjórnarinnar, sem samþykkt var á afmælisfundi ríkisstjórnarinnar í lok maí, að taka á móti fleiri flóttafjölskyldum frá Sýrlandi.