Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, flutti fyrirlestur sem bar yfirskriftina: „The Politics of Equality, the "Populist Moment" and the Power of New Technologies“ í London School of Economics (LSE) í gærkvöldi. Tæplega þrjú hundruð manns hlýddu á fyrirlesturinn, en þar fjallaði Katrín meðal annars um uppgang popúlisma í Evrópu og víðar. Katrín varaði við þeirri tilhneigingu að skilgreina popúlisma einkum út frá kröfum sem settar eru fram í nafni lýðræðis. Lýðræðið væri í þessu sambandi oft smættað niður í meirihlutaræði, sem gæti komið illa niður á minnihlutahópum. Sporna þyrfti gegn þjóðernishyggju og félagslegu og menningarlegu afturhaldi, sem væri áberandi í pólitík popúlískra afla. Greint er frá þessu á vef Stjórnarráðsins .

„Ég tel mikilvægt að taka þátt í þeirri alþjóðlegu umræðu sem nú á sér stað um uppgang popúlisma. Þær tilhneigingar sem við sjáum víða í Evrópu eru í beinni andstöðu við lýðræði, mannréttindi og réttindi kvenna. Þá hefur aftur orðið vart við afneitun á loftslagsvandanum á sviði stjórnmálanna,“ sagði Katrín meðal annars í erindi sínu.

Katrín sagði að ekki yrði tekist á við loftslagsvandann, sem virti ekki landamæri, nema með alþjóðlegu samstarfi. Katrín vakti einnig athygli á #églíka eða #metoo bylgjunni og á mikilvægi þess að Norðurlöndin sæktu sér þekkingu til ríkja með fjölþjóðlegri samsetningu í því skyni að bregðast við þeim veruleika sem konur af erlendum uppruna afhjúpuðu í tengslum við hreyfinguna. Þá fjallaði Katrín um samspil lýðræðis og tækni og setti þessa þætti í samhengi við menntun sem gegndi lykilhlutverki í að bregðast við þeim miklu samfélagsbreytingum sem ríki heims stæðu nú frammi fyrir.