Landsvirkjun stóð fyrir opnum fundi í gær um loftslagsmál undir yfirskriftinni „Hver er ábyrgð fyrirtækja í loftslagsmálum?“. Fundurinn var haldinn í Gamla bíói þar sem hundrað manns mættu til að hlýða á erindi um það hvernig fyrirtæki geta unnið gegn losun gróðurhúsalofttegunda og loftlagsbreytingum.

Ragnheiður Ólafsdóttir umhverfisstjóri Landsvirkjunar sagði frá aðgerðaráætlun Landsvirkjunar í loftslagsmálum í erindi sínu á fundinum. Markmiðið með aðgerðaráætluninni er að draga úr loftslagsáhrifum í starfsemi Landsvirkjunar. Árlega eru mæld kolefnisspor frá starfsemi Landsvirkjunar eftir uppruna losunar og unnið markvisst að kolefnisbindingu út frá þeim niðurstöðum sem felst í því að auka gróðurþekju og draga þannig úr styrk gróðurhúsalofttegunda.

Jóhann Þórsson sérfræðingur hjá Landgræðslu ríkisins sagði frá uppgræðslu landsins á síðustu öld og framtíðaráætlunum um kolefnisbindingu Landgræðslunnar. Sjáanlegur árangur uppgræðslu lands er algróinn jarðvegur en jafnframt þarf að huga að jarðveginum sem er ekki sjáanlegur, sagði hann í erindi sínu. Hann ræddi hvernig landgræðslan vinnur að því að breyta næringarsnauðum söndum og auðnum í frjósöm vistkerfi. Hann sagði að myndun frjósamrar moldar tæki langan tíma og að fyrir vikið væri sagan skrifuð í moldina. Þannig væri hægt að aðgreina jarðlög frá því fyrir og eftir landnám.

Mikilvægt að fyrirtæki sýni samfélagslega ábyrgð

Í erindi sínu hvatti Reynir Kristinsson stjórnarformaður Kolviðs fyrirtæki að sýna samfélagslega ábyrgð í verki og taka ábyrgð á sínum kolefnissporum. Fjöldi fyrirtækja fylgja stefnu um samfélagsábyrgð en of fá fylgja henni eftir í reynd. Reynir kynnti möguleika fyrirtækja á kolefnisjöfnun með samningi við Kolvið. Á þann hátt geta fyrirtæki tekið ábyrgð á eigin losun gróðurhúsalofttegunda og dregið úr styrk koldíoxíðs í andrúmsloftinu með bindingu kolefna með trjárækt.

Bryndís Skúladóttir forstöðumaður umhverfismála hjá Samtökum iðnaðarins sagði í framsögu sinni: „Þar sem eru breytingar eru jafnframt tækifæri. Atvinnulífið er stór hluti vandans því þar er stór uppspretta gróðurhúsalofttegunda. En atvinnulífið er hreyfiafl og getur verið hluti af lausninni. Á hverjum degi eru teknar ákvarðanir hjá fyrirtækjum sem hafa áhrif á það hvernig önnur fyrirtæki starfa og þannig kvíslast áhrifin eftir aðfangakeðjunni.“ Hún sagði að fyrirtæki þyrftu að horfa upp og niður aðfangakeðjuna og skoða kolefnisspor alla leið.